Æviágrip   Myndir   Niðjatal   Um vefinn 

Vilhjálmur Þorsteinsson verkamaður fæddist 18. september 1902 og lést 3. janúar 1984. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum, Sigríði Vigfúsdóttur frá Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi og Þorsteini Jónssyni frá Húsatóftum, en Sigríður lést þegar Vilhjálmur var á barnsaldri.

Börn Sigríðar og Þorsteins voru fjögur sem upp komust, Vigfús (1894-1974), Katrín (1895-1972), Þórdís (1900-1973) og Vilhjálmur. Vigfús var bóndi á Húsatóftum og kvæntist Þórunni Jónsdóttur frá Hlemmiskeiði (1905-2001). Þau hjón áttu 12 börn og er ætt þeirra orðin fjölmenn. Þær systur Katrín og Þórdís voru ógiftar og barnlausar og störfuðu sem saumakonur í Reykjavík. Uppeldisbróðir þeirra systkina var Helgi Geirsson kennari og framkvæmdastjóri (1911-1978). Kona hans var Sigríður Áskelsdóttir frá Hrísey (1911-1958) og áttu þau sex börn.

Vilhjálmur vann öll algeng störf framan af ævi, var til sjós eða í fiskvinnslu, í kaupamennsku og vann alls konar verkamannavinnu. Hann vann til dæmis við að byggja Aðalbyggingu Háskólans, sem nú heitir svo, á árunum fram að 1940. Það ár réðst hann til starfa hjá Eimskipum og vann þar í 39 ár, fyrst sem almennur hafnarverkamaður og síðan sem skrifari eins og það var kallað, en hann hafði skýra og fallega rithönd. Vilhjálmur lauk störfum hjá Eimskipum árið 1979.

Vilhjálmur kvæntist Kristínu Maríu Gísladóttur þann 27. maí 1939. Hún er dóttir hjónanna Gísla Jónssonar bónda og hreppstjóra á Stóru-Reykjum í Flóa og Maríu Jónsdóttur konu hans, sem var ættuð frá Seljatungu. Kristín er næstelst af níu systkinum sem voru auk hennar Jón, Helga, Haukur, Oddný, Siggi, Sólveig, Iðunn og Ingibjörg, og er af þeim kominn mikill ættbogi.

Kristín og Vilhjálmur stofnuðu heimili að Reynimel 40 þar sem Vilhjálmur hafði byggt tveggja hæða hús með kjallara, samtals þrjár íbúðir. Kristín býr þar enn þegar þetta er skrifað í tilefni af aldarafmæli Vilhjálms í september 2002. Þau hjónin eignuðust fjögur börn. Niðjatal þeirra má sjá hér.

Vilhjálmur lét talsvert til sín taka í Verkamannafélaginu Dagsbrún sem var löngum talið öflugasta stéttarfélag landsins á þeim tíma, en það varð síðar hluti af Eflingu - stéttarfélagi. Vilhjálmur átti sæti í stjórn eða varastjórn Dagsbrúnar um árabil og honum var gjarnan falið að sinna sérstökum og mikilvægum sjóðum félagsins, svo sem vinnudeilusjóði, sjúkrasjóði og atvinnuleysistryggingasjóði. Hann og kona hans eignuðust marga góða vini á þeim vettvangi og má til dæmis sjá þess stað í greinum sem þeir skrifuðu um hann bæði á afmælum og þegar hann lést.

Vilhjálmur átti ýmis áhugamál þrátt fyrir langan og strangan vinnutíma. Hann las mikið og var einlægur aðdáandi Halldórs Laxness jafnaldra síns frá öndverðu. Hann hafði yndi af skák og sótti í að tefla hvenær sem færi gafst. Einnig tók hann í spil á góðum stundum.

Vilhjálmur var barngóður og lét sér afar annt um börn sín og barnabörn sem eiga honum margt upp að unna.

Ýmislegt af því sem hér er fært í orð má sjá enn betur á myndunum hér á vefnum.